Um okkur

Holtsel í Eyjafirði, 17km frá Akureyri.

Í dag reka Arna Mjöll Guðmundsdóttir, Styrmir Frostason og Fjóla Kim Björnsdóttir kúabúið Holtsel og ísbúðina Holtsels Hnoss. Þau eru ungir bændur og eru fjórða kynslóðin í sömu fjölskyldu sem reka búið.

 Í Holtseli eru 60 mjólkandi kýr og annað eins í uppeldi. Hér er lausagöngufjós og mjaltarróbot. Í fjósinu er flokkunarhlið sem setur kýr á biðsvæði ef þær eiga að fara í mjaltir, ef þær þurfa ekki í mjaltir, þá stjórna kýrnar hvort þær eru úti eða inni.

 Árið 2006 hófst ísframleiðsla í Holtseli, sem var mikil frumkvöðlastarfsemi á sínum tíma og hefur það gengur vonum framar. Í dag eru til um 300 uppskriftir og í skafborðinu eru alltaf fjölbreyttar bragðtegundir í boði. Ísbúðin er opin á sumrin en lokuð á veturnar. Á veturna er hægt að bóka fyrir hópa, stóra sem smáa en þá er boðið uppá ís smakk og kynningar. Ísinn er einnig seldur í Nettó Glerártorgi, Nettó Granda, Nettó Mjódd, Hagkaup Akureyri, Hagkaup Skeifunni, Hagkaup Smáralind, Fisk kompaníinu og í Melabúðinni. Í ísbúðinni eru einnig seldar matvörur og gjafavörur frá öðrum smáframleiðendum. 

Til viðbótar við ísinn er hægt að kaupa kjöt beint frá býli hjá Holtseli. Í boði er ýmist alikálfakjöt, ungnautakjöt og/eða nautgripakjöt. Kjötið er úrbeinað af Jónasi Þórólfssyni kjötiðnaðarmanni. Hann metur hvern grip fyrir sig og getur því valið bestu steikurnar í hvert sinn. Kjötið er látið hanga í 2 vikur áður en það er úrbeinað, og látið meyrna í 7-10 daga áður en það fer í sölu. Við höfum áhuga á að bjóða uppá steikur sem eru minna þekktar á borð við flat iron, denver, þríhyrningasteik, framfille, kótilettur og rif. Kjötið er til sölu bæði í ísbúðinni og á heimasíðu Holtsels.

Við framleiðum okkar eigin rjómaís, jógúrt- og skyrísa, og sorbet (eggja og mjólkurlaus ís). Við bjóðum uppá fjölda af tegundum, en alla jafna eru 24 tegundir til að velja um í skafborðinu hjá okkur. Fyrir þá sem langar að prufa sem flestar tegundir erum við með "Risaísskál", en hún samanstendur af 15 ískúlum að eigin vali.